17.7.10

Grenjur

Stundum langar mig eiginlega bara að grenja þegar ég horfi á þau. Móðurástin kemur fram með svo rosalegu offorsi að ég næ varla andanum.
Þegar Nói kemur og kúrir sig að mér og segir að ég sé besta mamma í heiminum og þegar Una rífur kjólana sína uppúr kommóðunni og segir NEI og hendir þeim í gólfið þar til rétta dressið er fundið. Þá langar mig eiginlega bara að éta þetta skott.

Það er svo ótrúlega erfitt en ótrúlega gaman að ala upp börn, erfitt ekki í þeim skilningi að ég sé að bugast hér dag frá degi en auðvitað er þetta erfiðasta og mest krefjandi starf sem maður fær. Hvernig fer lífið með þau? Hvað taka þau sér fyrir hendur? Verða þau sanngjörn og vinnusöm? Löt og úrill? Allt þetta sem maður spáir í um leið og maður verður auðvitað að njóta hverrar mínútu!

Hreiðar Nói er skemmtilegur karakter, það hefur aldrei verið hægt að skamma hann því þá fer hann allur inní sig eins og snigill og hefur aldrei svarað fyrir sig. Það hefur alltaf verið hægt að tala hann til hinsvegar sem er góður kostur. Hann hefur alltaf verið pínu hræddur, vill hafa öll ljós á í herberginu, hljóp aldrei frá mér nema sjá mig í seilingarfjarlægð þegar hann var lítill. Hann getur setið og teiknað svo tímunum skiptir en hefur aldrei viljað lita í litabók, bara á hvít blöð. Hann teiknar mest róbot og heiminn sjálfann;) Hann byrjaði mjög snemma að tala og er ótrúlega góður félagsskapur, alltaf mjög notalegt að eiga stundir með honum. Honum hefur líka alltaf verið annt um útlitið, finnst ekkert skemmtilegra en að dressa sig upp og vera í fínum skóm auðvitað:)
Hann sýnir alltaf af sér fyrirmyndar hegðun t.d í skólanum, hann er vinsæll meðal krakkana og á góða vini. En hann getur líka verið dálítið áhrifagjarn. Hann er líka alveg einstaklega góður bróðir og hefur alltaf verið mjög annt um systur sína.

Una Barbara var strax frekar ólík Nóa, hún er furðulega yfirveguð, pollróleg og með mikið jafnaðargeð. Hún grenjar aldrei nema ef henni er líkamlega illt og vaknar alltaf með bros á vör. Hún er mun kjarkmeiri en bróðir sinn og skessast mjög svo sjarmenandi áfram. Nú er hún auðvitað ekki orðin tveggja ára en samt sér maður svona ákveðin einkenni sem eru ólík með þeim systkinum. Hún er aðeins seinni að læra að tala en það gæti líka stafað að því að hún er að læra tvö tungumál í einu;)
Mjög músikölsk enda farin að syngja löngu áður en hún lærði að tala. Hún gefur bróður sínum ekkert eftir enda hlakka ég mikið til að heyra þau rökræða í framtíðinni;)

Þetta var svona mömmufærsla, af því að ég er búin að liggja hér lasin í marga daga og horfa og hlusta á börnin mín;)

Engin ummæli: