19.7.10

Tannkrem

Ég er með tannkrems fetish, hreinlega með sjúklegan áhuga á tannkremum. Þetta jaðrar náttúrulega við bilun en ég hef eytt ómældum tíma og peningum í tannkrem!
Fór til hennar Guju minnar um daginn og fór í að bursta tennurnar án þess að vera eitthvað mikið að spá í hvað ég var að gera (sennilega verið að blaðra við hana) þríf eitthvað tannkrem og GVUÐMINNALMÁTTUGUR það var svo sterkt og vangefið gott tannkrem! Um leið og ég kom heim fór ég auðvitað á netið og pantaði mér túbu. Fyrsta kvöldið heyrðist aouch ahh vúúúu í Adam en um leið og túban kláraðist kom: " Hadda, við verðum að panta meira svona tannkrem". Öll tannkrem eru nefnilega eins og sleikjóar miðað við þetta tannkrem, eða sko tennurnar ekki nægilega hreinar að manni finnst!

Þetta er undrið!


TRY it! ragmana ykkur eins og Birta segir!

Tesco

Sumum finnst voða gaman að spóka sig í matvöruverslunum. Ég get játað það að mér finnst gaman að skoða mig um í flottum matvöruverslunum t.d Waitrose og Wholefoods en það kostar líka vanalega sitt! Svona daglegar ferðír í Tesco, Bónus og hvað þetta allt heitir gera mig hinsvegar geðveika. Þess vegna elska ég að versla bara í matinn á netinu, hér heima í sófanum og enga poka að bera. Í kvöld tók það mig svona korter að versla inn fyrir vikuna og það verður búið að ganga frá þessu inní skáp eftir vinnu á morgun.

Dásemd;)

Annars eyddi ég deginum í vinnunni í dag, enn dulluslöpp! Veit ekki hvaða pesti þetta er! Ekki spes. Sjúklega gott veður og stemningin við Carnaby street ljúf og góð. Allir pöbbar fullir frá hádegi og fólk að spóka sig í búðum og á veitingastöðum. Frábært hverfi alveg hreint. Líka svo skemmtilegt að nú hefur maður eignast vini á hverju horni, eiginlega er þetta bara eins og lítill smábær þar sem allir þekkja alla. Krúttaralegt svona í alþjóðavæðingunni.

Jæja, ekkert meira um þetta að segja. Hreiðar Nói telur niður í sumarfrí og hlakkar mikið til að hitta alla á Íslandinu góða.

Þangað til næst,
passið ykkur á myrkrinu!

18.7.10

Veikindi


Það er eiginlega mjög fyndið að lesa gamlar færslur á þessu bloggi frá Bergþórugötunni. Ég var nefnilega ALLTAF veik þarna! Og ekki að ástæðulausu, ég var búinn að ganga á milli lækna með stöðugt slen og blóðnasir, hitavellu og almenna vanlíðan en enginn vissi neitt þar til að ég fór í einhversskonar mataróþolsgreiningu og var greind með svepp í blóðinu. Sumsé sveppagróðurinn sem er í andrúmsloftinu var að ganga frá okkur mæðginum. Sl þrjú ár, eða síðan við fluttum þaðan höfum við eiginlega aldrei orðið veik. Hreiðar Nói hefur einu sinni misst úr skóla einn dag þessa þrjá vetur en þá fékk hann ælupesti.

Nú er ég hinsvegar búin að vera lasin í tæpa viku og ég er hreinlega að verða geðveik! Á svo innilega ekki við mig að liggja bara og stara útí loftið. Held samt að ég sé að hressast. Ekkert alvarlegt bara sjúkleg hálsbólga og beinverkir og slen! OJ! Una er veik líka mér til stuðnings og hóstar líkt og hún hafi reykt í amk 70 ár.

Feðgar eru bara hressir, bítur ekkert á þá frekar en fyrri daginn!

Kickers



Flottir!

17.7.10

Grenjur

Stundum langar mig eiginlega bara að grenja þegar ég horfi á þau. Móðurástin kemur fram með svo rosalegu offorsi að ég næ varla andanum.
Þegar Nói kemur og kúrir sig að mér og segir að ég sé besta mamma í heiminum og þegar Una rífur kjólana sína uppúr kommóðunni og segir NEI og hendir þeim í gólfið þar til rétta dressið er fundið. Þá langar mig eiginlega bara að éta þetta skott.

Það er svo ótrúlega erfitt en ótrúlega gaman að ala upp börn, erfitt ekki í þeim skilningi að ég sé að bugast hér dag frá degi en auðvitað er þetta erfiðasta og mest krefjandi starf sem maður fær. Hvernig fer lífið með þau? Hvað taka þau sér fyrir hendur? Verða þau sanngjörn og vinnusöm? Löt og úrill? Allt þetta sem maður spáir í um leið og maður verður auðvitað að njóta hverrar mínútu!

Hreiðar Nói er skemmtilegur karakter, það hefur aldrei verið hægt að skamma hann því þá fer hann allur inní sig eins og snigill og hefur aldrei svarað fyrir sig. Það hefur alltaf verið hægt að tala hann til hinsvegar sem er góður kostur. Hann hefur alltaf verið pínu hræddur, vill hafa öll ljós á í herberginu, hljóp aldrei frá mér nema sjá mig í seilingarfjarlægð þegar hann var lítill. Hann getur setið og teiknað svo tímunum skiptir en hefur aldrei viljað lita í litabók, bara á hvít blöð. Hann teiknar mest róbot og heiminn sjálfann;) Hann byrjaði mjög snemma að tala og er ótrúlega góður félagsskapur, alltaf mjög notalegt að eiga stundir með honum. Honum hefur líka alltaf verið annt um útlitið, finnst ekkert skemmtilegra en að dressa sig upp og vera í fínum skóm auðvitað:)
Hann sýnir alltaf af sér fyrirmyndar hegðun t.d í skólanum, hann er vinsæll meðal krakkana og á góða vini. En hann getur líka verið dálítið áhrifagjarn. Hann er líka alveg einstaklega góður bróðir og hefur alltaf verið mjög annt um systur sína.

Una Barbara var strax frekar ólík Nóa, hún er furðulega yfirveguð, pollróleg og með mikið jafnaðargeð. Hún grenjar aldrei nema ef henni er líkamlega illt og vaknar alltaf með bros á vör. Hún er mun kjarkmeiri en bróðir sinn og skessast mjög svo sjarmenandi áfram. Nú er hún auðvitað ekki orðin tveggja ára en samt sér maður svona ákveðin einkenni sem eru ólík með þeim systkinum. Hún er aðeins seinni að læra að tala en það gæti líka stafað að því að hún er að læra tvö tungumál í einu;)
Mjög músikölsk enda farin að syngja löngu áður en hún lærði að tala. Hún gefur bróður sínum ekkert eftir enda hlakka ég mikið til að heyra þau rökræða í framtíðinni;)

Þetta var svona mömmufærsla, af því að ég er búin að liggja hér lasin í marga daga og horfa og hlusta á börnin mín;)

16.7.10

End of year performance hjá Nóa í dag

Í gær gerði hann kort til okkar:

Á forsíðunni stóð; "thinking flower" To Adam and Hadda og mynd af blómi sem var að hugsa um kastala Inní stóð "You have ben the best parens ever I am so lice to hav you my mum and dad.

From Noi and Una

Og neðst stóð "Kol parens"



Flottastur eða!

15.7.10

Lífrænt eða ekki lífrænt






Síðan ég flutti hingað til London hefur það einhvernveginn æxlast þannig að ég kaupi eiginlega bara lífrænt grænmeti. Komandi frá Íslandi þar sem verðmunurinn er kannski svona 200% og þá varð maður nú bara stundum að sneiða framhjá því. En hér er enginn þannig verðmunur, ekki amk svo að maður þurfi að vega og meta hverja grænmetistegund. Í fyrstu fannst mér enginn hrottalegur munur á gæðum en núna kem ég ekki niður ólífrænum tómötum eða gulrótum. Mér finnst það alger viðbjóður. Tómatarnir eru bragðlausir og trénaðir og gulræturnar bragðvondar og þurrir. Keypti nefnilega fyrir mistök "Tesco value" tómata sem ég skar í salatið mitt í kvöld og oj. Sama með gúrkuna, þegar ég pantaði mat í vikunni komu fjórar ólífrænar gúrkur en ekki lífrænar og húðin og bragðið er viðbjóður. Þurfti hreinlega að skræla gúrkuna til að koma henni niður...
Annað sem er líka frábært hérna er mikið úrval af lífrænum barnamat, sem kostar það sama og hinar krukkurnar, endalaust úrval af virkilega bragðgóðum barnamat sem var hentugur þegar maður var á ferðinni með vagninn. Svo sem hætt að kaupa það núna enda borðar Una bara á matmálstímum með okkur.

Já maður verður víst að spá í hvað það er sem maður er að borða, ef maður ætlar eitthvað að endast:)

Dúfuljós



Hef lengi verið á leiðinni að fá mér svona ljós, svart eða appelsínugult. Sé það fyrir mér í svefnherberginu ógurlega kósý, svona amk ef manni er ekki mjög illa við dúfur. Hönnun eftir Ed Carpenter, er svo að fíla þetta!

Næsti bolli

Hlakka til að drekka morgunkaffið úr þessum í haust..

Blæs lífi í bloggið

Það hefur ekki farið mikið fyrir bloggi það sem af er þessu ári. Ég er samt spá í blogga áfram, fyrir mig aðallega en ef einhver hefur gaman því lesa er það svosem bara ágætt líka.

Við Una erum heima hálf lasnar báðar tvær, með flensu. Hefur varla gerst síðustu árin og við kunnum voða lítið meta þetta. Hún er í trans fyrir framan sjónvarpið og horfir á Lilla og brúðubílinn, gróf upp þennan disk frá Nóa. Finn að ég þarf að hafa meira og meira fyrir því að halda íslenskunni að henni. Ensku orðin eru svona 4 á móti einu íslensku. Það er eins gott að hún taki eitthvað inn í sumarheimsókninni til Íslands:)

Hreiðar Nói er voða hress, samt finn ég að hann er aðeins farinn að bíða eftir að komast í frí, það verður í lok næstu viku. Þá eigum við saman tvær vikur hér í London og svo tvær á Íslandi og tvær á Spáni. Verður voða gott fyrir alla held ég.
Una minnist reglulega á "holideiii" en hún naut sín svo ógurlega vel á Grikklandi í maí!

Hmmm já ég er ekki komin í bloggæfingu það er alveg ljóst.

Reyni aftur síðar:)